Innlent

Mjólkurlítrinn hækkar í hundrað krónur

Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki 1. apríl um 14,6 prósent. Þetta þýðir að mjólkurlítrinn hækkar að líkindum í hundrað krónur.

Fram kemur í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að frá 1. apríl hækki afurðastöðvaverð til bænda um rúmar 14 krónur á lítra mjólkur. Þá hækkar vinnslu- og dreifingarkostnaðar mjólkur um 2,20 krónur á hvern lítra. Við þessa breytingu megi gera ráð fyrir að einn lítri af nýmjólk hækki úr 87 krónur í tæpar 100 krónur en smásöluálagning á mjólk er frjáls.

Ástæður þessara verðhækkana eru einkum hækkun áburðarverðs, kjarnfóðurs og fjármagnsliða í verðlagsgrundvelli kúabús.

Fulltrúi ASÍ í verðlagsnefnd búvara sat hjá við atkvæðagreiðslu þar sem hann gat ekki staðið að hækkun á vaxtalið grundvallarins en var tilbúinn til að standa að ákvörðun um hækkun á búvörum þar sem tekið væri tillit til kostnaðarhækkana eins og kjarnfóðri og áburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×