Innlent

Stálu úrum fyrir milljónir úr verslun í miðbænum

Lögregla leitar nú tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa stolið armbandsúrum fyrir milljónir króna í verslun Hermanns Jónssonar úrsmiðar við Ingólfstorg um klukkan fjögur í nótt.

Að sögn lögreglu var hurðin spennt upp og sást til tveggja manna í eftirlitsmyndavél í versluninni. Þeir höfðu á brott með sér á bilinu 20-30 verðmæt úr af gerðunum Raymond Weil og Revue Homme, og má ætla að samanlagt virði þeirra nemi milljónum. Öryggisfyrirtæki fékk tilkynningu um innbrotið en þegar öryggisvörður kom á vettvang voru mennirnir á bak og burt.

Lögregla náði góðum myndum af mönnunum. Annar þeirra er um 185 sentímetrar á hæð og var með hvíta húfu, í svartri úlpu og gallabuxum og svörtum strigaskóm. Hinn var með svarta lambhúshettu, í svörtum jakka með hvítu merki á erminni og í dökkum gallabuxum og svörtum og hvítum skóm. Þeir sem telja sig geta veitt upplýsingar um ferðir mannanna eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×