Erlent

Páskahátíðinni fagnað víða um heim

Páskahátíðinni er fagnað víða um heim. Í Írak og Afganistan létu kristnir ekki báborið ástand aftra sér frá því að fagna upprisu krists og að venju var mikið um dýrðir í Jerúsalem.

Í miðborg Bagdad söfnuðust kristnir Írakar saman í hátíðarmessu. Mjög mikil öryggisgæsla var í kringum kirkjuna þar sem mörgum kristnum Írökum hefur verið rænt á undanförnum vikum. Allt var þó með kyrrum kjörum í messuni í morgun þótt að minnsta kosti 10 íraskir hermenn hafi látið lífið í sjálfvígssprengju í Mosul í norðurhluta Íraks í morgun.

Á Filipseyjum fögnuðu kaþólikkar upprisu Krists á táknrænan hátt áður en þeir héldu til messu. Siður þessi kallast salubong og er víða hafður í heiðri í þeim löndum þar sem Spánverjar höfðu yfirráð. Orðið Salubong vísar til þess að hitta einhvern sem er að koma, og í þessu tilfelli þegar Jesú Kristur hitti móður sína Maríu í fyrsta sinn.

Bandarískir hermenn í Afganistan fengu sömuleiðis að njóta hátíðaranda páskanna í sérstakri hátíðarguðsþjónustu. Árið 2007 var það blóðugasta í Afganistan síðan innrás Bandaríkjanna hófst árið 2001 og sagði presturinn að guðsþjónustan gæfi hermönnunum trú og stuðning á að takast á við þær hættur sem þeirra bíða.

Og í Jerúsalem var páskunum að sjálfsögðu fagnað. Hópur pílagríma safnaðist saman í grafargarðinum þar sem þeir telja að Jesú kristur hafi verið lagður til hvílu. Athöfnin markaði upphaf fjölda viðburða sem kristnir menn fagna á þessari hátíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×