Erlent

Benedikt páfi hélt árlegt páskaávarp sitt

Benedikt páfi hélt sitt árlega páskaávarp á Péturstorginu í Róm fyrir stundu. Í ræðu sinni hvatti hann til lausnar á deilunni í Tíbet og bað fyrir friði í Afríku og Miðausturlöndum.

Þúsundir pílagríma og ferðamanna söfnuðust saman í ausandi rigningu á Péturstorginu í Róm til að hlýða á hið árlega páskaávarp Benedikts páfa. Friður var að vonum páfanum hugleikinn og fór hann víða í ræðu sinni. Hann hvatti til lausnar deilunnar í Tíbet og talaði einnig fyrir friði í Miðausturlöndum og minntist hann í því samhengi á Írak og Líbanon. Þá hvatti hann þjóðir heims til að gleyma ekki hörmungunum í Afríku, svo sem í Darfúr og Sómalíu. Að lokum bað hann fyrir páskakveðju á 63 tungumálum.

Í gærkvöldi söng Benedikt páfi páskamessu í Péturskirkjunni í Róm og að venju skírði hann fullorðna til kaþólskrar trúar. Athygli vakti að meðal þeirra sem tóku upp kaþólska trú var Magdi Allam, aðstoðarritstjóri dagblaðsins Corriere della Sera. Allam var áður múslimi og hafði hann vakið athygli fyrir harðorð skrif sín gegn íslömskum öfgamönnum. Hafði honum borist fjölmargar hótanir vegna skrifa sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×