Erlent

Libby sviptur málflutningsleyfi

Lewis Libby, fyrrverandi starfsmannastjóri Dicks Cheney.
Lewis Libby, fyrrverandi starfsmannastjóri Dicks Cheney. MYND/AP

Dómstóll í Bandaríkjunum svipti í dag Lewis Libby, fyrrverandi starfsmannastjóra Dicks Cheney, varaforseta Bandaríkjanna, málflutningsleyfi vegna aðildar hans að svokölluðu CIA-lekamáli.

Libby var í fyrra sakfelldur fyrir lygar og fyrir að hindra framgang réttvísinnar í tengslum við rannsókn á því hver lak því í fjölmiðla að Valerie Plame, kona fyrrverandi sendiherra á vegum Bandaríkjastjórnar, væri njósnari fyrir CIA. Sendiherrann, Joseph Wilson, hafði gagnrýnt bandarísk stjórnvöld fyrir að hagræða sannleikanum í aðdraganda árásarinnar í Írak.

Talið var að einhver tengdur Bush-stjórninni hefði lekið nafni Plame en Libby var þó ekki ákærður fyrir það. Libby var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir brot sín en Bush Bandaríkjaforseti mildaði þann dóm og þurfti Libby því ekki að fara í fangelsi. Demókratar sökuðu forsetann um að misbeita valdi sínu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×