Erlent

Sextán ára danskur drengur dauðvona eftir hrottalega árás

Frá Danmörku.
Frá Danmörku. MYND/Pjetur

Sextán ára blaðburðardrengur í Danmörku liggur banaleguna eftir að þrír unglingar réðust á hann á Amager í gærdag með hafnaboltakylfu og börðu hann.

Eftir því sem danska blaðið BT segir hefur drengurinn verið úrskurðaður heiladauður og verður hann tekinn úr öndunarvél síðar í dag þegar ættingjar hans hafa fengið tækifæri til að kveðja hann.

Hinir meintu árásarmenn voru leiddir fyrir dómara í dag og úrskurðaðir í 27 daga gæsluvarðhald. Þeir eru ákærðir fyrir tilraun til manndráps en það gæti breyst og drengirnir verið ákærðir fyrir morð ef blaðburðardrengurinn deyr. Tveir piltanna sem ákærðir eru verða vistaðir á unglingaheimil sökum ungs aldurs.

Samkvæmt vitnum að árásinni komu tveir menn út úr bíl og spurðu fórnarlambið á hvað það væri að glápa áður en þeir létu til skarar skríða. Piltarnir þrír hafa áður komið við sögu lögreglunnar og hafði lögreglan beðið félagsmálayfirvöld að hafa afskipti af tveimur hinum yngri áður en til árásarinnar kom.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×