Erlent

Viðurkenna að óeirðir hafi verið víðar en í Tíbet

Kveikt hefur verið í opinberum byggingum og efnt til mótmæla víðar í Kína en einungis í Tíbet.
Kveikt hefur verið í opinberum byggingum og efnt til mótmæla víðar í Kína en einungis í Tíbet. MYND/AP

Kínversk stjórnvöld viðurkenndu í fyrsta sinn í morgun að óeirðir sem verið hafa í Tíbet hefðu breiðst út fyrir héraðið. Þannig segir Xinhua-fréttastofan kínverska að skemmdir hafi verið unnar á opinberum byggingum og verslunum í Sichuan-héraðinu á sunnudaginn var. Fregnir hafa einnig borist af óeirðum í nágrannahéraðinu Gansu og Qinghai.

Þá greindu kínversk yfirvöld frá því í morgun að 24 hefðu verið handteknir fyrir þátttöku í mótmælunum í höfuðborg Tíbets, Lhasa, á síðustu dögum. Enn fremur að 170 aðrir mótmælendur hefðu gefið sig fram.

Óeirðirnar í Tíbet hófust þann 10. mars og herma fregnir að tugir ef ekki hundrað manns hafi fallið í átökunum sem tengjast sjálfstæðisbaráttu Tíbeta. Kínversk stjórnvöld hafa takmarkað mjög starfsemi vestrænna fjölmiðla á svæðinu og eftir því sem fram kemur á fréttavef BBC var síðasta erlenda blaðamanninum vísað burt frá Lhasa í dag.

Öryggissveitir á vegum kínverskra stjórnvalda eru sagðar fara hús úr húsi til að leita þátttakenda í mótmælunum en Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, hefur hvatt til stillingar og það hefur Evrópusambandið einnig gert í yfirlýsingu. Ísland á aðild að þeirri yfirlýsingu eftir því sem utanríkisráðuneytið segir.

Dalai Lama, sem kínversk stjórnvöld hafa sakað um að skipuleggja óeirðirnar, mun funda með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þegar hann heimsækir Bretland í maímánuði. Frá þessu greindi Brown og sagði jafnframt að Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, væri reiðubúinn til viðræðna vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×