Enski boltinn

Dýrt tap hjá Bolton

NordcPhotos/GettyImages

Grétar Rafn Steinsson og félagar í Bolton misstu í dag af góðu tækifæri til að lyfta sér af fallsvæðinu í ensku úrvalsdeildinni þegar þeir töpuðu 1-0 fyrir Wigan á útivelli. Wigan spilaði með 10 menn lengst af í leiknum en það var Emile Heskey sem skoraði markið sem réði úrslitum.

Útlitið var ekki glæsilegt hjá heimamönnum í Wigan eftir að Jason Koumas fékk rautt spjald fyrir tæklingu eftir aðeins fjórar mínútur. Dómurinn þótti nokkuð strangur, en liðsmunurinn kom ekki að sök þegar Emile Heskey skoraði með föstu skoti eftir innkast frá Mario Melchiot á 33. mínútu.

Bolton menn vildu fá vítaspyrnu í sitthvorum hálfleiknum en fékk ekkert og situr liðið því enn í þriðja neðsta sætinu í deildinni með 25 stig, tveimur meira en Fulham og einu minna en Birmingham sem er í 17. sætinu. Sunderland hefur svo 27 stig í 16. sæti og Newcawstle og Reading hafa 28 stig.

Wigan fór í 12. sæti deildarinnar með sigrinum og svo virðist sem liðið sé að mestu laust við falldrauginn í bili eftir að það nældi sér í 31. stigið sitt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×