Innlent

Gætu fengið á sjötta milljarð fyrir loðnuna

MYND/Vilhelm

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir það mjög jákvætt skref að sjávarútvegsráðherra hafi ákveðið að auka loðnukvótann í dag um 50 þúsund tonn. Hann segir af allt fari eins og best verður á kosið geti hafst á sjötta milljarð króna út þeirri loðnu sem mælst hafi nú á tæpri viku.

Fram kom í fréttum fyrr í dag að sjávarútvegsráðherra hefði farið að ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar og aukið loðnukvótann um 50 þúsund tonn. Bætast þau við hundrað þúsund tonna kvóta sem gefinn var út í síðustu viku eftir að loðnan fannst í nægjanlegu magni.

„Ef allt fer eins og planað er varðandi vinnslu á þessum fiski þá getum við haft rúmlega fimm milljarða króna upp úr þessu," segir Friðrik. Þar vísar hann til áforma um að fá sem mest fyrir loðnuna meðal annars með því frysta hana og ná hrognum úr henni.

Aðspurður segir Friðrik að loðnukvótinn skipti sköpum fyrir fyrirtæki í Vestmannaeyjum, á Norðausturlandi og Austurlandi. Um loðnufundinn segir Friðrik: „Þetta segir okkur að það verður að vera við loðnuleit alveg fram í rauðan dauðann. Það er mjög erfitt að ná utan um loðnuleitarmælingar og þess vegna mikilvægt að loðnuleitarskipin séu úti. Kostnaður við úthald leitarskipa mjög lítill miðað við þær tekjur sem fást af loðnunni ef hún finnst," segir Friðrik J. Arngrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×