Innlent

Jafnræðisregla brotin með aðstoðarmannafrumvarpi?

MYND/Stefán

Deilt var um það á Alþingi í dag hvort það stangaðist á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ekki fengju allir þingmenn aðstoðarmenn með nýju frumvarpi um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

Önnur umræða um frumvarpið hélt áfram í dag en í því er gert ráð fyrir að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fái aðstoðarmenn og að þingmenn í Suður-, Norðvestur- og Norðausturkjördæmi geti ráðið sér aðstoðarmann í þriðjungsstarf. Þannig geta þrír landsbyggðarþingmenn slegið saman í aðstoðarmann.

Þessari tilhögun mótmæltu höfuðborgarþingmennirnir Jón Magnússon og Mörður Árnason og sögðu að það kynni að stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Sagði Mörður að verið væri að mismuna þingmönnum og kjósendum eftir því í hvaða kjördæmi þeir væru.

Meirihluti allsherjarnefndar segir í nefndaráliti sínu að hér sé verið að stíga fyrstu skrefin í þá átt að auka aðstoð við þingmenn almennt. Meirihlutinn telji að sterk rök hnígi í þá átt að útvíkka þetta fyrirkomulag frekar, meðal annars þannig að aukin aðstoð nái til allra þingmanna. „Meiri hlutinn leggur áherslu á að forsætisnefnd hugi þegar að breytingum í þá veru svo sem með tilliti til fjárlagavinnu fyrir næsta ár," segir í nefndarálitinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×