Innlent

Framferði Ísraela óafsakanlegt

Framferði Ísraela á Gasasvæðinu er óafsakanlegt og ríkisstjórnin fordæmir það. Þetta sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í dag.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, kvaddi sér hljóðs við upphaf fyrirspurnartíma og benti á að á annað hundrað manns hefðu verið drepnir á síðustu fimm dögum á Gasasvæðinu, þar á meðal tugir barna. Ekki væri vafi á því að Gefnarsáttmálinn hefði verið margbrotinn og það eitt ætti að duga til að íslensk stjórnvöld tækju við sér.

Ísraelar hefðu haldið íbúum Gasa innikróuðum í níu mánuði og þar vantaði matvæli og lyf og rafmagn. Spurði hann hvernig ríkisstjórnin hygðist bregðast við og benti á að félagið Ísland-Palestína hefði krafist þess að Ísland sliti stjórnmálasambandi við Ísrael

Geir H. Haarde sagði ástandið á svæðinu hörmulegt og framferði Ísraela óafsakanlegt. Það þyrfti þó að hafa í huga að það sem hefði orsakað ástandið að því er Ísraelar segðu væru eldfalugaárásir frá Gasasvæðinu. Sagði hann ekkert hafa verið rætt um það á vettvangi ríkisstjórnarinnar að slíta stjórnmálasambandi við Ísraela þrátt fyrir að þetta gamla vinaríki Íslands hefði leiðst út í ógöngur sem íslensk stjórnvöld fordæmdu. Þá sagði hann það fráleitt að stilla því þannig upp að Íslendingar gætu stöðvað átökin, málið væri flóknara en svo.

Íhugi að slíta stjórnmálasambandi

Ögmundur sagði að stjórnvöld ættu að íhuga þann kost að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael því hér væru á ferðinni mjög alvarleg mannréttindabrot. Þá sagði hann svör ráðherra gamalkunn, ísraelsk stjórnvöld væru fordæmd en minnt á að Palestínumenn bæru jafn þunga sök. Þeim málatilbúnaði hafnaði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×