Innlent

Vilja nýja flutningslínu á Suðurnesjum

Hitaveita Suðurnesja gerir kröfu um að byggð verði nýr flutningslína frá Hamranesi til Suðurnesja til þess að auka afhendingaröryggi á raforku frá félaginu.

Í tilkynningu frá Hitaveitunni segir að vegna eldingar hafi Suðurnesjalínu slegið út á föstudag og sömuleiðis virkjunum í Svartsengi og á Reykjanesi. Þurfti Hitaveitan að kaupa raforku sem ella hefði verið framleidd í virkjunum frá flutningskerfi Landsnets til þess að geta staðið við skuldbindingar við viðskiptavini sína. Þetta hafi kostað Hitaveituna fjórar milljónir króna. Þá sé ótalið tjón fyrirtækja og einstaklinga vegna útsláttarins.

„Eins og staðan er í dag þá sitja Suðurnesjamenn ekki við sama borð og allflestir raforkukaupendur landsins þegar kemur að öryggi raforkuflutnings. Orkuframleiðsla HS hf á Suðurnesjum er orðin stærsta framleiðslueining raforkukerfisins sem tengd er með einni línu og stefnir í að verða einu stóru virkjanirnar sem tengdar eru kerfinu með þeim hætti. Við það að raforkukerfi landsins missi út þessa framleiðslu þarf að grípa til skerðingar raforku á suðvesturhorninu og getur það ekki talist ásættanlegt ástand," segir í tilkynningu Hitaveitunnar.

Þar segir einnig að krafa Hitaveitu Suðurnesja hafi verið sú að byggja nýja flutningslínu frá Hamranesi í Hafnarfirði til Suðurnesja og hafi Landsnet tekið þeirri málaleitan vel. Sú vinna sé í gangi og vonandi komi til þeirra framkvæmda sem fyrst þannig að afhendingaröryggi fyrirtækja, almennings og orkuframleiðslunnar verði með viðunandi hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×