Innlent

Undrabarn meðal þátttakenda á Skákhátíð í Reykjavík

Undrabarnið og skáksnillingurinn Illya Nyzhnyk lærði að tefla fjögurra ára gamall með því að horfa á skákir Bobby Fischers. Búist er við því að Illya verði yngsti skákmeistari sögunnar innan skamms. Hann er einn fjölmargra sem tekur þátt í Alþjóðlegu skákhátíðinni í Reykjavík sem hefst á morgun.

Skákhátíðin er haldin í minningu Bobby Fischers sem hefði orðið 65 ára næsta sunnudag. Mörgum af skærustu skákstjörnum heims er boðið til mótsins í ár eins og hinni 21 árs Taniu Sachdev, Indlandsmeistara kvenna, Srinath Narayanan 13 ára og Sahaj Grover 12 ára sem einnig eru frá Indlandi og Illya Nyshnyk sem er um það bil að verða alþjóðlegur meistari aðeins 11 ára gamall. Margir telja að Illya komi til með að verða yngsti skákmeistari sögunnar

Illya komst fyrst í heimsfréttirnar fyrir ári síðan en þá sigraði hann í afar sterkum lokuðum flokki á Moscow open, þá aðeins 10 ára gamall. Þá tefldi hann alltaf með bangsa í fanginu.

Fyrsta umferð skákhátíðarinnar hefst á morgun klukkan fimm í Skákhöllinni í Faxafeni. Hápunkti nær hátíðin eftir viku, á afmælisdag Fischers en þá mun Boris Spassky, fyrrverandi heimsmeistari í skák og keppinautur Fischers halda erindi og sýna skákir frá ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×