Innlent

Bloggfærslur hurfu af bloggi Össurar

Umdeild bloggfærsla Össurar Skarphéðinssonar um Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa hvarf af heimasíðu Össurar í gærkvöldi ásamt fjölda annarra sem meðal annars fjölluðu um málefni Orkuveitunnar. Össur segist ekki hafa eytt færslunum út og að verið sé að kanna hvernig stóð á hvarfi þeirra.

Umdeild bloggfærsla Össurar Skarphéðinssonar um Gísla martein Baldursson, borgarfulltrúa hvarf af heimasíðu Össurar í gærkvöldi ásamt földa annarra sem meðal annars fjölluðu um málefni Orkuveitunnar. Össur segist ekki hafa eytt færslunum út og að verið sé að kanna hvernig stóð á hvarfi þeirra.

Það var um klukkan 11 í gærkvöldi sem um 30 bloggfærslur Össurar hurfu af heimasíðu hans. Fréttavefurinn Eyjan greindi frá því í hádeginu í dag að Össur hefði eytt út umdeildri færslu sinni um Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa sem og öllum öðrum færslum um orkuútrás og átök innan borgarstjórnar Reykjavíkur, nema einni. Færslurnar voru síðan settar inn aftur skömmu eftir að frétt Eyjunnar birtist á vefnum.

Þegar fréttastofa hafði samband við Össur í dag vegna málsins sagðist hann ekki vita hvers vegna færslurnar hurfu af heimasíðu sinni. Það hafi ekki verið gert að hans beiðni né með hans vitund. Þegar honum hafi orðið ljóst að færslurnar væru horfnar hafi hann beðið umsjónarmann síðunnar um að setja þær inn aftur.

Blogg Össurar er hýst hjá fyrirtækinu Hexia. Þórarinn Stefánsson, framkvæmdarstjóri fyrirtækisins sagði í samtali við fréttastofu ekki liggja fyrir hvers vegna færslurnar hurfu. Verið væri að kanna það og þá hvort einhver óprúttin einstaklingur hafi staðið þar að verki. Þórarni þótti þó líklegra að færslunum hafi verið eytt fyrir mistök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×