Innlent

Borgarlögmaður semur drög að svari um REI til umboðsmanns

Umboðsmaður spyr meðal annars um vitneskju Vilhjálms Þórmundar Vilhjálmssonar.
Umboðsmaður spyr meðal annars um vitneskju Vilhjálms Þórmundar Vilhjálmssonar.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að fela borgarlögmanni að semja drög að svari við spurningum frá umboðsmanni Alþingis sem bárust í byrjun vikunnar og snúa að málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í vikunni spyr umboðsmaður meðal annars hvort Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, oddvita borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, hafi mátt vera ljóst að meirihluti borgarstjórnar var andvígur samruna REI og Geysis Green Energy. Einnig er spurt um kaupréttarsamninga sem gerðir hafa verið í félögum tengdum Orkuveitunnar. Vill hann fá svör fyrir 14. mars.

Umboðsmaður rannsakar málið að eigin frumkvæði. Þetta er annar spurningalistinn sem umboðsmaður sendir borgaryfirvöldum vegna málsins. Sá fyrri var sendur í kjölfar þess að REI-málið kom upp í byrjun október og var þeim spurningum svarað fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×