Samningar um uppbyggingu og rekstur alþjóðlegs gagnavers á gamla Varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli verða undirritaðir í dag. Gert er ráð fyrir að starfsemin hefjist að einhverju leyti síðar á árinu en netþjónabúið verði komið í fullan rekstur eftir fjögur ár.
Á annað hundrað ný störf verða til á Suðurnesjum með gagnaverinu. Það er félagið Verne Holdings, sem er í eigu Novators, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandaríska fjárfestingafélagsins General Catalyst, sem stendur að uppbyggingu fyrirtæksins.
Samningar þess, sem undirrita á í Reykjavík í dag, verða við Landsvirkjun um raforkukaup, við Farice um lagningu nýs sæstrengs og loks við Þróunarfélag Keflavíkur um húsnæði.
Ráðist í virkjanir í Þjórsá vegna netþjónabús
Félagið semur um kaup á 25 megavöttum og möguleika á 25 megavöttum til viðbóta, en Landsvirkjun hyggst ráðast í umdeildar virkjanir í neðri hluta Þjórsár vegna þessa verkefnis.
Þá er gert ráð fyrir að nýr sæstrengur verði lagður til landsins á þessu ári en hann mun ekki aðeins þjóna þessu eina gagnveri heldur treysta um leið öll önnur netsamskipti Íslands við útlönd.