Innlent

Fyrstu niðurstöður í stjórnsýsluúttekt eftir um mánuð

Reiknað er með að fyrstu niðurstöður í stjórnsýsluúttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á Orkuveitu Reykjavíkur liggi fyrir eftir um mánuð en niðurstöðum verður skilað í áföngum.

Stýrihópur um málefni REI skilaði í gær skýrslu sinni en enn er beðið eftir úttekt innri endurskoðunar borgarinnar og umboðsmanns Alþingis í málinu. Innri endurskoðun var falið að gera stjórnsýsluúttektina um leið og samruna REI og Geysis Green Energy var hafnað í nóvember síðastliðnum.

Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkur, sagði í samtali við Vísi að vinna við stjórnsýsluúttektina gengi ágætlega. Samkvæmt erindi borgarráðs átti innri endurskoðunin að fara yfir þrjá þætti málsins, stjórnsýsluþáttinn, dótturfélög Orkuveitunnar og innra eftirlit fyrirtækisins.

Reiknað væri með að niðurstöður varðandi stjórnsýsluþáttinn lægju fyrir eftir um mánuð en óvíst væri með hina þættina. Úttektin væri á teikniborðinu og lítið væri hægt að segja um hana meira að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×