Innlent

Heddi frændi dreginn á flot

Breki Logason skrifar
Björgunaraðgerðir á Hedda frænda í dag.
Björgunaraðgerðir á Hedda frænda í dag.

„Ég fæ svar í næstu viku en ég bað um frest þar til 11.maí og hef því tæpa þrjá mánuði," segir Svavar Cesar Kristmundsson bátaáhugamaður sem vill varðveita tæplega 60 tonna eikarbát sem nefnist Heddi frændi.

Báturinn sökk í Hornafjarðarhöfn þann 4.febrúar síðast liðinn en sveitarfélagið Hornafjörður tók bátinn upp í skuld fyrir skömmu. Svavar hefur hinsvegar viljað láta gera bátinn upp sem hann segir kosta á bilinu 20-30 milljónir.

„Ég er ísfirðingur og fylgdist alltaf með þegar verið var að smíða nýja báta, alveg frá 8-9 ára aldri. Ég fór meðal annars í prufusiglingu á Víkingi II," en það er upprunalegt nafn Hedda frænda.

Báturinn var upprunalega sjósettur árið 1959 og vill Svavar koma í veg fyrir að bátinum verði fargað. „Ég hef viljað koma honum allavega í geymslu hérna á Húsavík, honum er þá ekki fargað á meðan."

Svavar vonast til að fá frest til 11.maí sem er táknræn dagsetning þar sem vertíðarlok eru á þeim degi ár hvert.

„Ég hef ekkert farið í neina betlistarfsemi en vona að einhver gefi sig fram. Ég er ekkert voðalega bjartsýnn en hef heyrt af mönnum sem eru á sömu skoðun og ég þarna fyrir vestan," segir Svavar sem búsettur er á Húsavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×