Innlent

Funduðu um útvistun á skráningu sjúkraskráa

MYND/ÞÖK

Fulltrúar læknaritara áttu í morgun fund með forstöðumönnum Landspítalans þar sem rætt var um útvistun á störfum læknaritara á sjúkrahúsinu.

Fundinn sátu einnig formenn BSRB og SFR og segir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, á heimasíðu BSRB að fundurinn hafi verið gagnlegur. Engin sameiginleg niðurstaða varð á fundinum en ákveðið var að halda viðræðum áfram og horfa þá jafnframt til lengri tíma.

„Ég tel mjög mikilvægt að málið fái áframhaldandi umræðu," segir Ögmundur á heimasíðu BSRB og bætir við: „Við skulum ekki gleyma því að um er að ræða lykilstörf í heilbrigðiskerfinu sem snúa að sjúklingum, persónuvernd og að sjálfsögðu látum við okkur ekki í léttu rúmi liggja þegar við teljum vegið að starfskjörum okkar félaga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×