Innlent

Á rétt á bótum vegna vinnuslyss

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að því í dag að starfsmaður Myllunnar ætti rétt á skaðabótum vegna slyss sem hann varð fyrir í vinnu sinni.

Um var að ræða konu sem vann við að þrífa framleiðsluvélar hjá Myllunni. Um mitt ár 2001 var hún að þrífa vél þegar handleggur hennar fór í færiband og dróst hún undir valsa á vélinni. Í kjölfar slyssins var konan metin til 30 prósenta örorku en þegar hún sótti um bótagreiðslu úr ábyrgðatryggingu Myllunnar var því hafnað á þeim grundvelli að konan hefði sýnt gáleysi við vinnu.

Dómurinn komst hins vegar að því að konan hefði aðeins fylgt verklagi sem tíðkast hefði hjá Myllunni og því hefði hún ekki sýnt af sér gáleysi. Þá kemur fram í dóminum að hægt hafi verið verið að komast í snertingu við tiltekna vélarhluti þrátt fyrir hlífðarbúnað og því hafi vélin ekki uppfyllt skilyrði um öryggi. Því bæri Myllunni að bera fulla skaðabótaábyrgð á slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×