Innlent

Segir umhverfisráðherra í mótsögn við sjálfa sig

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra vill að Ísland fái undanþágu frá mengunarkvótum vegna flugstarfsemi en berst á sama tíma gegn því að Ísland fái slíka undanþágu vegna stóriðju. Fyrrverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, telur að þar með sé Þórunn komin í mótsögn við sjálfa sig.

Siv benti á á Alþingi í gær að í stóriðjunni væri notuð endurnýjanleg orka meðan svo væri alls ekki í fluginu. Þórunn sagði að hér væri um eðlisólíka hluti að ræða. Undanþágan í Kyoto-bókuninni varðaði eina tegund atvinnustarfsemi, stóriðju, en almennt farþegaflug helgaðist af því að Ísland væri eyja og íslenskir borgarar ættu ekki annan kost en að fara með flugvél til og frá landinu.

Siv sagði hins vegar að flugstarfsemi væri ein tegund af starfsemi rétt eins og iðnaðarframleiðsla og taldi einsýnt að Íslendingar ættu að fá viðurkennda sérstöðu á báðum sviðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×