Innlent

Undirbúa raðtilnefningu víkingaminja á skrá UNESCO

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Peter-Harry Carstensen, forsætisráðherra Slésvíkur-Holstein, á blaðamannafundinum í gær.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Peter-Harry Carstensen, forsætisráðherra Slésvíkur-Holstein, á blaðamannafundinum í gær.

Hafinn er undirbúningur að raðtilnefningu menningarminja frá tímum víkinga á heimsminjakrá UNESCO. Frá þessu greindu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og tveir ráðherrar þýska sambandslandsins Slésvíkur-Holstein á blaðamannafundi í Kiel í gær.

Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu kemur fram að auk Íslands og Slésvíkur-Holstein komi Danir og Svíar að verkefninu og þá verða stjórnvöld í Kanada og Noregi hugsanlega aðilar að ferlinu.

Ísland verður ábyrgðaraðili verkefnisins en frumkvæði að raðtilnefningunni átti Slésvík-Holstein, sem í nokkur ár hefur unnið að því að tilnefna Haithabu og Danewirke á heimsminjaskrá. Ísland hefur unnið að verkefninu með Þjóðverjum um nokkurra ára skeið og á fundi ríkisstjórnarinnar 10. ágúst í fyrra var tekin ákvörðun um að Ísland yrði aðili að hinni alþjóðlegu tilnefningu.

„Heimsminjanefnd Íslands hefur fengið það hlutverk að stýra verkefninu fyrir okkar hönd og vinnur hún nú að undirbúningi málþings og fundar á Íslandi í apríl þar sem kallaðir verða til fulltrúar þeirra landa, sem taka þátt í verkefninu," segir enn fremur í tilkynningu ráðuneytisins. Stefnt er að því að tilnefning vegna víkingaminja verði afhent UNESCO fyrir 1. febrúar eftir tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×