Innlent

Á 143 kílómetra hraða á Suðurlandsvegi undir áhrifum fíkniefna

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann til að greiða 400 þúsund krónur í sekt og svipt hann ökuleyfi í 14 mánuði fyrir umferðarlaga- og vopnalagabrot.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ekið á 143 kílómetra hraða austur Suðurlandsveg við Ingólfsfjall í Ölfusi undir áhrifum fíkniefna. Við húsleit heima hjá manninum fann lögregla lítilræði af marijúana og amfetamíni og óskráðan riffil auk magasíns og 50 riffilskota.

Maðurinn játaði á sig brotin og þar sem um ítrekunarbrot var að ræða þótti 400 þúsund króna sekt hæfileg refsing auk ökuleyfissviptingar. Greiði maðurinn ekki sektina innan fjögurra vikna þarf hann að dúsa í steininum í 24 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×