Sextán prósent borgarbúa eru ánægð með nýjan borgarstjóra samkvæmt könnun sem Gallup gerði og greint var frá í fréttum RÚV. Könnunin var gerð á meðal borgarbúa á tímabilinu 22. til 29. janúar.
Spurt var: „Hversu ánægður eða óánægður ertu með nýjan borgarstjóra Ólaf F. Magnússon?" Sextíu og fjögur prósent sögðust vera óánægð með Ólaf. Sextán prósent sögðust vera ánægð með hann en 21% sagðist vera hvorki ánægður né óánægður.
Gallup kannaði einnig afstöðu borgarbúa til nýja borgarstjórnarmeirihlutans. Tuttugu og sjö prósent eru ánægð með hann, 62% óánægð en 11% hvorki ánægð né óánægð.
Níutíu og eitt prósent fylgismanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru óánægð með nýja meirihlutann. Ánægjan er mest á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, en 76% þeirra eru ánægð með nýja meirihlutann.