Innlent

Stóð til að loka leikskólanum Hvarfi í dag vegna ógreiddra launa

Foreldrar barna á leikskólanum Hvarfi í Vatnsendahverfi í Kópavogi fengu hringingu frá leikskólanum í dag og þau beðin um að sækja börnin sín. Ástæðan var sú að starfsmenn leikskólans höfðu ekki fengið greidd laun og því ætti að loka skólanum. Að sögn Eddu Guðrúnar Guðnadóttur, trúnaðarmanni starfsmanna á Hvarfi, kom þó ekki til þess þar sem laun voru greidd þegar fréttirnar fóru að kvisast út.

Forsaga málsins mun vera sú að leikskólinn er rekinn á svokölluðum þjónustusamningi við fyrirtækið ÓB ráðgjöf. Bærinn á húsnæðið en ÓB ráðgjöf sér um reksturinn og starfsmannahald. Þessum samningi hefur nú verið sagt upp og rennur hann út 1. maí næstkomandi.

Edda segir mikla óvissu ríkja um framtíð leikskólans vegna þessara mála. „Þegar í ljós kom í morgun að ekki væri fé inni á reikningi til þess að greiða starfsmönnum laun fannst okkur nóg komið og ákváðum að grípa til þessa ráðs. Það varð líka til þess að það var hlustað á okkur og launin greidd skömmu síðar," segir Edda.

Hún segir óvissu um framtíð skólans sérstaklega slæma í ljósi þess að nýlega hafi tekist að manna hann að fullu en mikil mannekla hefur háð leikskólastarfinu á Hvarfi. „Eins og ég sagði við eitt foreldrið áðan þá er þetta sorgleg staða í ljósi þess að við erum búin að manna hérna, erum með frábært starfslið og þessi yndislegu börn." Hún bætir því við að starfsfólkið hafi neyðst til að beita þessum aðgerðum því engin vissa hafi verið fyrir því hvenær lagt yrði inn á reikninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×