Innlent

Þurfa skýrari heimild til að beita viðurlögum

Frá frumsýningu myndarinnar „Thank you for smoking".
Frá frumsýningu myndarinnar „Thank you for smoking".

Reykingabann á veitingastöðum var til umræðu hjá Vinnueftirlitinu eftir að fréttir bárust af því að eigendur nokkurra veitingastaða hyggðust hundsa bannið. Stöð 2 greindi frá því í kvöld að eigendur nokkurra öldurhúsa hefðu leyft reykingar í gær.

Vinnueftirlitið og heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar sjá um eftirlit með að reykingabanni sé framfylgt. Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlitsins segir að málið hafi verið rætt þar á bæ í dag en ekki hafi verið ákveðið hvað gera skuli í stöðunni. „Það er mjög mikilvægt að Vinnueftirlitið og heilbrigðiseftirlitið vinni vel saman í þessu máli," segir Eyjólfur. Hann hyggst funda með heilbrigðiseftirlitinu um málið

Eyjólfur segir ekki hægt að beita miklum viðurlögum. Þó séu tveir ferlar sem hægt sé að fylgja. „Til að geta lokað þarf að sýna fram á að bráðahætta sé fyrir hendi, sem er vafasamt að um sé að ræða í þessu tilfelli," segir Eyjólfur. „Hinn ferillinn er sá að það sé búið að gefa áminningu og að hæfilegum tíma liðnum er þá hægt að loka staðnum. Sú lokun er þá framkvæmd með aðstoð lögreglu," bætir Eyjólfur við.

Eyjólfur segir að nauðsynlegt að gera lög um reykingarbannið skýrari svo auðveldara verði að fylgja þeim. Til dæmis þurfi að hafa skýrara ákvæði um leyfissviptingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×