Innlent

Ekki hægt að útiloka beitingu kynjakvóta

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson. M;YND/Pjetur

Ekki er hægt að útiloka beitingu lögbundins kynjakvóta hjá íslenskum fyrirtækjum, takist ekki að leiðrétta hlut kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum. Þetta kom fram í máli viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar á fundi sem hópur kvenna stóð fyrir í dag. Fundurinn var haldinn í tengslum við auglýsingar sem birtust í blöðum í morgun þar sem rúmlega hundrað konur lýstu sig reiðubúnar til þess að taka sæti í stjórnum íslenskra fyrirtækja.

Björgvin fór yfir málin og nefndi nokkur úrræði sem að hans mati er hægt að beita til þess að auka hlut kvenna í stjórnum. Á meðal þess sem hann nefndi var að auka virka umræðu um málefnið, verðlauna fyrirtæki sem náð hafa árangri á þessu sviði og höfða til neytenda með því að gera þá meðvitaða um það hvaða fyrirtæki gæti að kynjajafnrétti.

„Ég mun beita mér fyrir því að framangreindum úrræðum verði beitt og að umræðu um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja verði haldið vakandi. Það er hins vegar æskilegast að fyrirtæki sýni frumkvæði í að jafna kynjahlutföll í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda, en afskipti löggjafans eru þó ekki útilokuð sé ljóst að ekkert annað virki," sagði Björgvin.

„Þá mundi ég telja að lögfesting á kynjakvóta væri ekki fyrsta skrefið heldur væri fyrst hægt að lögfesta upplýsingaskyldu fyrirtækja um nöfn, stöðuheiti og ábyrgðarsvið stjórnarmanna og æðstu stjórnenda fyrirtækja, en slík upplýsingagjöf þekkist víða erlendis. Slíkt stuðlar bæði að því að fyrirtæki verði í auknum mæli meðvituð um skipun í stjórnir og ábyrgðarstöður auk þess sem slíkt auðveldar öflun gagna um kynjahlutföll stjórnar og stjórnenda í fyrirtækjum. Ef ljóst þykir að ekkert annað dugar er ekki hægt að útiloka beitingu lögbundins kynjakvóta," sagði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×