Innlent

Stundargræðgi dró synina í dópsmygl

Fíkniefnalögreglan. Myndin tengist fréttinni ekki.
Fíkniefnalögreglan. Myndin tengist fréttinni ekki.
„Ég held að þetta hljóti að hafa verið stundargræðgi í auðfenginn aur, " segir Katrín Andrésdóttir móðir þeirra Jóhannesar Páls Gunnarssonar og Ara Gunnarssonar sem ásamt bernskuvini sínum Tómasi Kristjánssyni eru sakaðir um að hafa flutt inn fimm kíló af amfetamíni og 600 grömm af kókaíni. Mennirnir voru handteknir í síðustu viku og sitja nú í gæsluvarðhaldi.

Katrín segir að atburðinn mikinn harmleik en kann enga skýringu á hegðun sona sinna. „Þeir eru miklir námsmenn og íþróttamenn. Annar þeirra var í landsliðinu í sundi," segir Katrín. Þriðji bróðirinn féll fyrir eigin hendi fyrir fimm árum síðan og ræddi Katrín þann sorgaratburð af mikilli einlægni í Örlagadeginum hjá Sirrý. „Það var nú ekki til að bæta úr fyrir bræðurna, " segir Katrín.

Fimm menn voru handteknir í síðustu viku vegna málsins sem kom upp fyrir áramót þegar Tollgæslan á Suðurnesjum lagði hald á fíkniefnin. Efnin höfðu verið send með hraðsendingu til landsins frá Þýskalandi. Tveimur var sleppt að lokinni yfirheyrslu en bræðurnir og Tómas, sem er starfsmaður hraðsendingafyrirtækisins, eru enn í haldi.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×