Innlent

Skora á HB Granda að endurskoða uppsagnir

Bæjarráð Akraness skorar á stjórn HB Granda að endurskoða fyrirhugaðar uppsagnir starfsmanna fyrirtækisins á Akranesi. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi ráðsins sem haldinn var í gær.

Bæjaryfirvöld segjast jafnframt reiðubúin til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að liðka fyrir flutningi á frekari starfsemi fyrirtækisins til Akraness. Á fundi bæjarráðs í gær var farið yfir stöðu mála en eins og fram hefur komið í fréttum á að segja upp nærri 60 manns í landvinnslu HB Granda á Akranesi og verður um þriðjungur ráðinn aftur.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, kom á fund bæjarráðs en hann telur að að HB Grandi hf. fari ekki að lögum við uppsagnirnar. Þá kom einnig fram í máli hans að ef að þessum uppsögum verður hafi tapast um 150 störf frá sameiningu HB við Granda frá árinu 2004.

Verkalýðsfélagið og trúnaðarmenn starfsmanna HB Granda á Akranesi telja að hægt sé að ná fram hagræðingu í rekstri félagsins með öðrum hætti en kynnt hefur verið. Stjórn HB Granda kemur saman til fundar í dag til þess að taka endanlega ákvörðun í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×