Innlent

Hver var Bobby Fischer?

Bobby Fischer
Bobby Fischer

Robert James Fischer var fæddur þann 9.mars árið 1943. Hann lést á Landsspítalanum í Fossvogi í gær eftir alvarleg veikindi og hefði því orðið 65 ára gamall á þessu ári. Bobby Fischer varð frægur á unglingsárum fyrir hæfileika sína við skákborðið.

Þann 1.september árið 1972 tefldi hann hið sögufræga einvígi gegn Boris Spassky og sigraði einvígið. Þar með varð hann annar Bandaríkjamaðurinn til að vera krýndur heimsmeistari í skák.

Bobby var alla tíð afar umdeildur maður og missti titilinn þegar hann neitaði að verja hann árið 1975. Ferill hans einkenndist alla tíð af óvejulegri hegðun Fischers og varð hann fljótlega umdeildur fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Þær skoðanir einkenndust af gyðingahatri og fyrirleit hann fæðingarland sitt. Bandaríkin.

Árið 1992 komst Fischer í heimfréttirnar þegar hann tók þátt í skákmóti í Júgóslavíu. Með þeirri þáttáköku sinni braut hann alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn landinu sem bandaríkjastjórn hafði sett. Í kjölfarið varð hann eftirlýstur í Bandaríkjunum. Fischer hélt síðan til Japans þar sem hann dvaldi en var fangelsaður eftir að upp komst að hann var með útrunnið vegabréf.

Eftir erfiða dvöl í fangelsi í Japan kom gamall vinur Bobby frá íslandsdvölinni til bjargar. Sæmundur Pálsson betur þekktur sem Sæmi Rokk hafði verið bílstjóri Bobbys hér á landi og það var fyrir tilstilli Sæmundar að farið var í að fá skákmeistarann lausan. Bobby sótti um landvistarleyfi hér á landi með bréfi sem hann sendi Davíði Oddssyni utanríkisráðherra árið 2004.

Bobby fékk síðan jákvætt svar sem fór illa í bandarísk stjórnvöld. Samtökin RFJ undir forystu Einars S. Einarssonar hófu mikla baráttu fyrir því að fá hingað til lands. Í kjölfarið fór Bobby fram á íslenska ríkisborgararétt svo hann kæmist hingað til lands.

Alþingi samþykkti síðan að veita Fischer ríkisborgararéttinn þann 21.mars árið 2005. Tveimur dögum síðar flaug hann hingað til lands og lenti á Reykjavíkurflugvelli. Hann bjó því á Íslandi síðustu daga ævi sinnar og kryddaði þjóðlífið með sérvisku sinni. "Hér er hreint og gott loft, nóg rými og góður matur," sagði Bobby Fischer við komuna til Íslands.

Fischer settist ekki við taflborð á síðasta skeiði ævi sinnar en er gjarnan talinn einn allra besti skákmaður allra tíma. Hann sagðist hafa lítinn áhuga á skák þegar hann kom hingað til lands. Bobby hafði dvalið á sjúkrahúsi um nokkurt skeið áður en hann lést.

Boris Spassky og Bobby Fischer heilsast fyrir fyrstu skákina á Hótel Maestral í Sveti Stefan í Júgóslavíu 2. september 1992.MYND/AFP
Fischer og Spassky einbeita sér á Heimsmeistaramótinu 5. nóvember 1992. Fischer vann leikinn og keppnina með 10 vinningum á móti fimm. Verðlaunaféð var 3,35 milljónir dollara, eða tæpar 220 milljónir íslenskra króna.MYND/AFP
Fischer og sovéski skákmeistarinn Tigran Petrossian tefla í Buenos Aires í júlí 1971.
Samsett mynd af Fischer og Spassky árið 1972 þegar þeir mættust í einvígi um heimsmeistaratitilinn í Reykjavík.
Ljósrit af vegabréfi Fischer tekið þegar hann var í haldi á Narita flugvelli í Tokýó í Japan 29. júlí 2004. Hann var sakaður um að brjóta gegn japönsku innflytjendalögum eftir að reyna að fara til Filippseyja með passa sem bandarískir embættismenn segja að hafi verið afturkallaður. Fischer íhugaði þá að sækja um ríkisborgararétt í Þýskalandi til að forðast að vera vísað úr landi frá Japan til Bandaríkjanna þar sem handtökuskipun var í gildi á hendur honum.
Á alþjóðaflugvellinum í Tokýó. Fischer talar við fréttamenn fyrir brottför hans frá Japan á leið til Íslands þar sem hann hafði fengið ríkisborgararétt. Hann var látinn laus eftir átta mánaða fangelsi í Japan.
Blaðamannafundur í Tókýó þegar Fischer var leystur úr haldi. John Bosnitch (annar frá hægri) formaður nefndarinnar sem vann að lausn hans í Tókýó. Sæmundur Pálsson lengst til hægri, þá Bosnitch, Guðmundur Þórarinsson, Masoko Suzuki lögmaður Fischers og kærasta hans Miyoko Watai.
Við komuna til Íslands. Fischer stígur út úr einkavél sem flutti hann til landsins 24. mars 2005.

Tengdar fréttir

Fékk að kenna á snilli Bobbys Fischer

Friðrik Ólafsson stórmeistari og fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands segir fráfall Bobbys Fischer sorgleg tíðindi. Friðrik segist nokkrum sinnum hafa fengið að kenna á snilli Fischers og telur hann einn af höfuðsnillingum skáklistarinnar.

Bobby leitaði skjóls í búðinni hjá Braga

„Ég var einmitt að leggja til hliðar bækur til að láta hann fá þegar ég heyrði fréttirnar," segir Bragi Kristjónsson bóksali, en Bobby Fischer var fastagestur í búðinni hans á Klapparstígnum. „Hann hafði mest gaman af gömlum amerískum teiknimyndasögum og hló mikið þegar hann las þær." Bragi segir að einnig hafi hann leitað í sögur af mönnum sem hrakist hefðu frá löndum sínum enda má segja að Bobby hafi verið í slíkri stöðu sjálfur.

Bobby kom Íslandi á kortið

Einar S. Einarsson var í forsvari hópsins sem beitti sér fyrir því að Bobby Fischer fengi lausn úr fangelsi í Japan og íslenskan ríkisborgararétt. Hann kynntist Fischer náið á þeim þremur árum sem liðin eru síðan hann kom hingað til lands. „Bobby Fischer var að mínu mati meistari meistarana í skák," segir Einar í samtali við Vísi. „Hann kom Íslandi á kortið, svo einfalt er það. Þegar hann tefldi hér við Spassky 1972 var Ísland óþekkt í heiminum og Fischer breytti því á skammri stund."

Spasskí brugðið við fréttir af fráfalli Fischers

Boris Spasskí var brugðið þegar Vísir hafði samband við hann á heimili hans í París fyrir stundu vegna andláts Bobbys Fischer fyrrverandi andstæðings síns í skák. Hann hafði ekki heyrt af fráfalli Fishers en vildi vita nánari upplýsingar um aðdraganda þess. Spasskí vildi ekki tjá sig frekar á þessari stundu.

Bobby Fischer látinn

Skákmeistarinn Bobby Fischer er látinn. Hann lést eftir erfið veikindi.

Þakklát fyrir að Fischer fékk að deyja á Íslandi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður Skáksambands Íslands, segist þakklát fyrir það að Íslendingar hafi komið Bobby Fischer til hjálpar og hann hafi fengið að deyja frjáls á Íslandi en ekki í fangelsi. Bobby Fischer lést í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×