Innlent

Fundaði með framkvæmdastjóra landbúnaðarmála hjá ESB

Einar K. Guðfinnsson og Marianne Fischer Boel.
Einar K. Guðfinnsson og Marianne Fischer Boel.

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundaði í fyrradag með Marianne Fischer Boel, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála Evrópusambandsins, í Brussel.

Fram kemur í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að rætt hafi verið um stöðu landbúnaðarmála í alþjóðlegu samhengi og þær breytingar sem unnið er að á vettvangi Evrópusambandsins um þessar mundir.

Viðamikil endurskoðun fer fram á landbúnaðarstefnu ESB, þar sem þess er freistað að undirbúa landbúnað í ríkjum sambandsins fyrir hugsanlegar breytingar, sem leiða munu af nýjum samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Enn er þó óvíst um hvort niðurstaða fáist í núverandi viðræðulotu stofnunarinnar.

Einar og Boel ræddu einnig hækkun matvælaverðs og þá verðhækkun sem hefur orðið á ýmiss konar aðföngum í landbúnaði. Þá lýsti Boel áhuga á að heimsækja Ísland og kynna sér landbúnað hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×