Innlent

Utanríkisráðherra leggur fram varnarmálafrumvarp

MYND/Pjetur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp til varnarmálalaga á Alþingi, þau fyrstu sinnar tegundar á Íslandi.

Samkvæmt þeim fer utanríkisráðherra fer með yfirstjórn varnarmála og verður starfrækt sérstök stofnun, Varnarmálastofnun, sem sinna mun verkefnum á sviði varnarmála. Stofnunin verður til húsa á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að það byggist á þeirri meginforsendu að Íslendingar séu herlaus þjóð og að ekki sé vilji til þess af hálfu stjórnvalda að breyta þeirri staðreynd. Verið sé að setja skýran lagaramma um verkefni íslenskra stjórnvalda á sviði öryggis- og varnarmála og aðskilnað þeirra frá öðrum verkefnum stjórnvalda sem eru borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæsla og almannavarnir.

Verkefni sem snúa að varnarviðbúnaði ríkisins og ytra öryggi þess munu nú Íslendingar vinna en hingað til hafa erlendir hermenn sinnt því. Það breyttist í hitteðfyrra þegar bandaríski herinn kvaddi Miðnesheiði. Samstarf verður þó áfram við önnur ríki um varnir landsins en fram hefur komið að meðal annars Danir og Norðmenn munu sinna eftirliti við Íslandsstrendur.

Frumvarpið í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×