Innlent

Mörg þekkt nöfn vilja frekari sjálfstæði dómstóla

Árni Matt og Árni M. Mathiesen eru á listanum.
Árni Matt og Árni M. Mathiesen eru á listanum.

Vísir sagði frá því í dag að hafin væri undirskriftarsöfnun áhugafólks um sjálfstæði dómstóla. Nú í kvöld eru komnar 517 undirskriftir og eru þar nokkrir þjóðþekktir einstaklingar sem hafa ritað nafn sitt.

Undirskriftarsöfnunin er í raun áskorun á alþingismenn um að breyta lögum svo sjálfstæði dómstóla verði betur tryggt. Söfnun undirskriftanna kemur í kjölfar ákvörðunnar setts dómsmálaráðherra Árna M. Mathiesen þegar hann gekk gegn áliti matsnefndar og réði Þorstein Davíðsson héraðsdómara.

Það undarlega er hinsvegar að Árni sjálfur virðist vera á listanum. Er hann þar bæði undir nafninu Árni M. Mathiesen og Árni Matt. Í raun er hægt að slá inn hvaða kennitölu sem er úr þjóðskránni og setja hvaða nafn sem er með kennitölunni.

Því ætti ekki að taka listann of hátíðlega en þar er hinsvegar að finna mörg athyglisverð nöfn. Á listanum má sjá Rúvarana Baldvin Þór Bergsson og Brynju Þorgeirsdóttur auk þess sem fréttaþulurinn góðkunni af stöð 2 Logi Bergmann er á listanum.

Egill Helgason og Illugi Jökulsson hafa skráð sig ásamt Kristrúnu Heimisdóttur aðstoðarmanns utanríkisráðherra. En Ingibjörg Sólrún er sjálf skráð á listann ásamt fleiri þingmönnum. Þeim Helga Hjörvari, Jóni Magnússyni og Jóni Bjarnasyni.

Þráinn Bertelsson er einnig skráður auk þess sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson er á listanum.

Eins og fyrr segir skal ekki taka listann alvarlega en þetta sýnir þó að mörgum finnst sjálfstæði dómstóla í landinu ekki nægjanlega tryggt.

Hægt er að skrá sig á listann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×