Innlent

Álit félagsmálaráðuneytis skortir lagagrundvöll

Frá Akureyri.
Frá Akureyri.

Það álit félagsmálaráðuneytisins að sveitarfélögum sé óheimilt að fela einkaaðilum eignarhald og viðhald gatna er ekki byggt á fullnægjandi lagagrundvelli hjá ráðuneytinu að mati umboðsmanns alþingis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti hans vegna svokallaðs Melateigsmáls á Akureyri.

Í tilkynningu frá Akureyrarbæ segir að rót þessa máls megi rekja til þess að Hagsmunafélag húseigenda og íbúa við Melateig á Akureyri kærði Akureyrarbæ til félagsmálaráðuneytisins. Var það vegna þess að fasteignaeigendum við götuna var gert að eiga og sjá um viðhald á götunni.

Félagsmálaráðuneytið ákvað að taka málið til skoðunar á grundvelli eftirlitshlutverks ráðuneytisins og þann 22. apríl 2003 komst félagsmálaráðneytið að þeirri niðurstöðu að Akureyrarbæ væri óheimilt að fela eigendum fasteigna eignarhald og viðhald götumannvirkis.

Hagsmunafélag húseigenda við götuna leitaði í kjölfarið til umboðsmanns Alþingis og var kvörtun þess tvíþætt. Annars vegar var kvartað yfir þeirri afstöðu félagsmálaráðuneytisins að ekki væri tilefni til að áminna Akureyrarbæ í kjölfar álits félagsmálaráðneytisins og gera kröfu um úrbætur gagnvart hagsmunafélaginu. Hins vegar laut kvörtunin að meðferð Akureyrarbæjar á málefnum hagsmunafélagsins frá upphafi.

Umboðsmaður tók fyrri kvörtunarliðinn til sérstakrar athugunar og var niðurstaða hans sú að forsenda fyrir áliti félagsmálaráðuneytisins frá 22. apríl 2003, að sveitarfélögum væri óheimilt að fela einkaaðilum eignarhald og viðhald gatna, væri ekki byggð á fullnægjandi lagagrundvelli hjá ráðuneytinu.

Akureyrarbær segir umboðsmann vísa til 78. gr stjórnarskrárinnar sem kveður á um sjálfsstjórn sveitarfélaga, því svigrúmi sem sveitarfélögum er veitt í störfum sínum og að lagaákvæði hafi ekki með skýrum hætti bannað slíkt eignarhald fasteignaeigenda á götumannvirkjum. Taldi umboðsmaður í framhaldinu ekki ástæðu til að taka síðara kvörtunarefni til umfjöllunar.

„Jafnframt álítur umboðsmaður að nauðsynlegt sé að löggjafinn kveði betur á um fyrirkomulag við ráðstöfun lóða og byggingarlands undir íbúðarhúsnæði í þéttbýli. Slíkt myndi draga úr lögfræðilegum ágreiningsefnum um skyldur sveitarfélaga gagnvart fasteignaeigendum.

Ljóst er að ofangreint álit umboðsmanns Alþingis styður gjörðir Akureyrarbæjar undanfarin ár í málinu og þar með ætti vonandi að sjást fyrir endann á því," segir í tilkynningu bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×