Innlent

LEB sakar heilbrigðisráðherra um sjónhverfingar

MYND/Anton

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara kallar ákvörðun heilbrigðisráðherra um breytingar á komugjöldum á sjúkrastofnanir sjónhverfingar og skorar á ráðherra að endurskoða ákvörðun sína.

Landssambandið fagnar þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra að fella niður komugjöld heilbrigðisstofnana af börnum og unglingum frá og með síðustu áramótum.

Ekki sé þó allt sem sýnist því reikningurinn verði sendur ömmum og öfum barnanna og unglinganna þar sem komugjöld þeirra hækka um 43 prósent. Segir Landssambandið að því hafi ekki tekist að finna þessari ákvörðun stað í rúmlega hálfs árs gömlum stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Því er skorað á heilbrigðisráðherra að endurskoða þessa ákvörðun sína sem allra fyrst með það að leiðarljósi að draga verulega úr eða fella alfarið niður komugjöld heilbrigðisstofnana.

Með þessu tekur Landssamband eldri borgara undir orð Öryrkjabandalagsins sem hefur gagnrýnt aukna gjaldtöku af öryrkjum á heilbrigðisstofnunum. Sagði Örykjabandalagið í tilkynningu í fyrradag að gjaldataka af öryrkjum myndi aukast um allt að 70 prósent með breytingum ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×