Innlent

Bjargaði fjölskyldu rétt áður en hann dó - styrktarsöfnun hafin

Maðurinn sem lést í brunanum í Tunguseli í morgun vann mikla hetujdáð þegar hann bar vinkonu sína og tvo syni hennar út úr brennandi íbúðinni.

Eldsins var vart um sexleytið í morgun og var allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins kallað á vettvang. Íbúum á fjórðu hæð var bjargað með körfubíl út úr húsinu þar sem ófært var um stigaganginn sökum reyks. Konan sem bjó í íbúðinni sem brann var hins vegar komin út úr húsinu ásamt sonum sínum þegar slökkvilið kom á vettvang.

Vinur foreldra drengjanna segir vin konunnar hafa unnið þrekvirki í morgun. Hann mun hafa borið piltana tvo, sem eru 12 og sjö ára, út úr brennandi íbúðinni og svo sótt konuna og komið henni einnig fram á gang. Hann mun svo hafa hnigið niður og þegar slökkvilið kom í íbúðina var hann látinn. „Þetta var mikið hetjuverk hjá honum," segir vinurinn í samtali við Vísi.

Piltarnir tveir hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en móðir þeirra er þar enn vegna reykeitrunar.

Fjölskyldan missti allt sitt í brunanum og hefur vinurinn stofnað reikning á nafni eldri sonarins. Reikningsnúmerið er 113-05-066351 og kennitalan 190796-3029.

Eldsupptök eru ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×