Enski boltinn

Ráðning Capello kemur Blatter á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter lýsir furðu sinni á ráðningu Fabio Capello.
Sepp Blatter lýsir furðu sinni á ráðningu Fabio Capello. Nordic Photos / Getty Images

Sepp Blatter segir að ráðning Fabio Capello í stöðu þjálfara enska landsliðsins hafi komið sér mikið á óvart.

Blatter segir í samtali við fréttastofu BBC að Englendingar hafi með ráðningu sinni brotið eina af meginreglum alþjóðlegrar knattspyrnu.

„Ég hef aldrei orðið vitni að því að Ítalía, Þýskaland, Brasilía eða Argentína sé með erlendan þjálfara," sagði Blatter. „Flest þeirra bestu er með innlendan þjálfara."

England náði í haust ekki að vinna sér þátttökurétt í úrslitakeppni EM sem fer fram í Austurríki og Sviss í sumar. Blatter segir að þar með sé komið að uppgjöri í enskri knattspyrnu.

Hann kennir því um að rándýrir erlendir knattspyrnumenn eru fjölmennir í ensku úrvalsdeildinni og af þeim sökum fái enskir leikmenn og þjálfarar ekki tækifæri til að þróast og öðlast reynslu með ensku félögunum.

„Þegar ég byrjaði að starfa fyrir FIFA árið 1975 var Walter Winterbottom þjálfari enska landsliðsins. Hann starfaði með okkur og enskir þjálfarar voru virtir um allan heim."

„En hvaða erlend lið eru í dag þjálfuð af enskum þjálfurum? Hvar eru þeir Englendingar sem leika erlendis? Það er ljóst að eitthvað hefur breyst hvað varðar áhuga alheimsins á enskri knattspyrnu."

Blatter segir einnig að það gæti orðið vandamál að Capello tali ekki ensku enda sé mikilvægt að tala tungumál heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×