Innlent

Líklegast tapað fé

Á aðeins einni viku tókst ungmennum á Akranesi að taka hátt í sex milljónir króna út af bankareikningi í leyfisleysi. Ekki eru taldar miklar líkur á að peningarnir skili sér til baka en ungmennin notuðu þá meðal annars til að borga fíkniefnaskuldir.

Sjö ungmenni á aldrinum sautján ára til tvítugs voru handtekin fyrir helgina vegna gruns um að þau hefðu átt þátt í að taka um sex og hálfa milljón króna út af bankareikningi í Sparisjóði Akranes í leyfisleysi. Upp komst um málið rétt fyrir áramótin þegar verið fara yfir ýmis mál í bankanum. Bankinn kærði málið til lögreglu sem handtók svo eiganda reikningsins síðastliðinn fimmtudag og í framhaldinu hin ungmennin.

Bankareikningurinn var stofnaður í nóvember og átti ekki að vera með neinni yfirdráttarheimild en svo virðist sem að hún hafi verið ótakmörkuð. Eigandi reikningsins áttaði sig fljótlega á þessum möguleika en fór frekar hægt af stað í því að taka út peninga. Stærstur hluti upphæðarinnar eða hátt í sex milljónir voru teknar út síðustu vikuna í desember. Peningarnir voru allir teknir út eða millifærðir í gegnum hraðbanka í bænum og námu sumar hraðbankamillifærslurnar nokkrum hundruðum þúsunda króna.

Þorkell Logi Steinsson, útibústjóri Sparisjóði Akranes, segir glufu hafa opnast í kerfinu þegar að reikningur unga mannsins var stofnaður. Þorkell segir um að ræða einangrað tilfelli og að gerðar hafi verið ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra fer með rannsókn málsins. Eigandi reikningsins og annar af ungmennunum hafa játað að hafa tekið út af reikningnum en hin ungmennin að hafa tekið á móti peningunum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tókst að frysta hátt í átta hundruð þúsund króna innistæður á reikningum og um sextíu þúsund krónur fundust við húsleit. Ekki eru taldar miklar líkur á að restin af peningunum finnist. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var verulegur hluti fjárhæðarinnar notaður til að greiða fíkniefnaskuld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×