Innlent

Óttast óvissu á vinnumarkaði

Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins óttast óvissu á vinnumarkaði samþykki stjórnvöld ekki auka persónuafslátt fyrir lágtekjufólk. Hann kallar eftir skýrum svörum frá stjórnvöldum og segir lítinn tíma til stefnu.

Almenn sátt ríkir milli forystumanna launþega og verkalýðsfélaga um að í næstu kjarasamningum verði áhersla lögð á að hækka lágmarkslaun og laun þeirra sem setið hafa eftir í launaskriðinu á undanförnum árum.

Alþýðusambandið hefur einnig kallað eftir hækkun bóta og að stjórnvöld fallist á auka persónuafslátt fyrir lágtekjufólk.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, segir kjarabót felast í hækkun persónuafsláttar fyrir lágtekjufólk. Hann segir hins vegar stjórnvöld óttast að í þessu felist einhvers konar jaðarskattur sem letji þau til aðgerða.

Gylfi segir lítinn tíma til stefnu og kallar eftir skýrum svörum frá stjórnvöldum eigi deilan ekki að dragast á langinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×