Innlent

Rændu bíl af þriggja barna móður

Andri Ólafsson skrifar

Óprútinn aðili, eða aðilar, gerðust svo kræfir í gær að stela bíl hinnar 21 árs gömlu þriggja barna móður Söru Rós Kavanagh.

Sara var á ferð í Mjóddinni um þrjúleitið í gær. Hún lagði bíl sínum og stökk inn í banka þar sem hún þurfti að sinna erindum. Þegar hún kom út aftur var bíllinn hennar horfinn. Í bílnum var fatnaður barna Söru, geisladiskar, barnabílstóll og fleira. Þar að auki voru húslyklar að heimili hennar en hún hefur þegar skipt um lása á heimili sínu.

Í samtali við Vísi sagðist Sara telja það líklegt að hún hefði misst bíllyklana sína í götuna þar sem hún var á leið inn í bankann. Einhver hljóti að hafa tekið þá upp og stolið bílnum hennar.

"Ég talaði við lögregluna og þeir sögðu mér að það væri happa glappa hvort bíllinn minn mundi finnast aftur," segir Sara. Hún bætti því þó við að vonir væru bundnir við að eftirlitsvélar á svæðinu myndu hjálpa til við að finna þjófana.

"En þar sem ég vill að sjálfsögðu að bíllinn minn komist í leitirnar sem fyrst bið ég alla þá sem hafa upplýsingar um málið að hringja í lögregluna," segir Sara.

Bíllinn hennar er af gerðinni Volkswagen Golf, árgerð 2005. Hann er silfurlitaður og ber númerið JH-897.

Símanúmerið hjá lögreglunni í Reykjavík er 4441000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×