Innlent

Borgarstjóri segir framkvæmdir vegna Laugavegshúsa kosta mikið

Borgarstjóri segir að kostnaður vegna flutnings og endurgerðar á húsunum að Laugavegi 4 og 6 verði mikill. Hann segir ekki ólíklegt að húsunum verði komið fyrir í Hljómskálagarði.

Upphaflega átti að hefja niðurrif húsanna í gær en þær framkvæmdir voru stöðvaðar að beiðni Dags. B. Eggertssonar borgarstjóra. Ætla eigendur húsanna að byggja hótel á staðnum.

Samkvæmt niðurstöðum viðræðna milli eigenda húsanna og borgaryfirvalda fær borgin nú 14 daga frest til að flytja húsin og koma þeim fyrir á öðrum stað.

Borgarstjóri segir undirbúning að flutningi húsanna þegar hafinn og er fullviss um að hægt verði að flytja húsin innan þess tímaramma sem samkomulagið kveður á um. Hann gerir ráð fyrir að kostnaður vegna þessa verði mikill. Flutningurinn sjálfur kosti um 4 til 5 milljónir en endurgerðin verði töluvert dýr þó endanlegur kostnaður liggi ekki fyrir.

Þá segir borgarstjóri vel hugsanlegt að húsunum verði komið fyrir í Hljómskálagarði í tengslum við þær hugmyndir um kaffihús í garðinum sem hann sjálfur hefur hreyft við á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×