Innlent

Lögregla vill að Exodus hætti að selja úðabrúsa

Rannsóknarlögreglan mætti í verslunina Exodus við Hverfisgötu í dag og óskaði þess að eigandi hætti sölu á úðabrúsum sem notaðir eru við veggjakrot. Eigandi verslunarinnar segist hafa orðið fyrir ofsóknum af hálfu embættismanna fyrir það eitt að selja brúsana.

Umræðan um veggjakrot hefur verið áberandi að undanförnu eftir að tveir piltar ollu miklum skemmdum á húsum við Laugaveg síðastliðinn þriðjudag. Piltarnir hafa báðir játað brot sín en við yfirheyrslu sögðust þeir hafa keypta úðabrúsana sem þeir notuðu við verkið í versluninni Exodus við Hverfisgötu. Sú verslun er ein þeirra fárra sem selur slíka brúsa hér á landi.

Tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn mættu í verslunina í dag þegar fréttamenn Stöðvar 2 voru á staðnum. Fór lögreglan þess á leit við eiganda að hann hætti sölu brúsanna.

Nína Sigríður Geirsdóttir, eigandi Exodus, segir þetta ekki í fyrsta skipti sem embættismenn reyni að ýta á sig. Áður hafi fulltrúar frá Reykjavíkurborg meðal annars hótað að sturta rusli fyrir framan verslunina til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir kæmust inn í hana. Þá segist hún einnig hafa orðið fyrir aðkasti frá almenningi fyrir það eitt að hafa brúsana til sölu. Hún segist hins vegar ekki ætla að draga brúsana úr sölu.

Nína bendir á að nú þegar séu gildi reglur hjá versluninni sem miði að því að koma í veg fyrir að brúsarnir lendi í höndum skemmdarvarga. Hún segir flesta þá sem kaupa úðabrúsa nota þá í listrænum tilgangi og ekki til þess að krota á húsveggi og valda skemmdum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×