Innlent

Sýknaður af líkamsárás í miðborginni

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur sumarið 2006.

Til stimpinga kom á milli hópa manna á horni Laugavegar og Bergstaðastrætis og var sá sem kærði kýldur í andlitið þannig að framtönn brotnaði og fjarlægja þurfti tönnina.

Ákærði neitaði sök í málinu en kannaðist hins vegar við að hafa komið að einhverjum stimpingum á Laugaveginum en ekki tekið þátt í þeim. Segir dómurinn að þrátt fyrir að frásögnin sé með nokkrum ólíkindablæ að ákærði hafi ekki munað eftir því hjá lögreglu að hafa séð frænda sinn þarna í stimpingum verði ekki hjá því litið að vitni séu ekki á einu máli um að ákærði hafi ráðist á þann sem kærði.

Þá hafi liðið rúmir sex mánuðir og allt að tíu mánuðir frá atvikinu og þar til lögregla ræddi við vitni. Þá var ákæra ekki gefin út fyrr en í lok október 2007. Þegar svo langur tími líði hljóti það óhjákvæmilega að hafa áhrif á minni vitna og áreiðanleika þeirra.

Öll vitni í málinu séu annaðhvort skyldmenni eða vinir annars vegar ákærða og hins vegar kæranda. Að teknu tillit til þessa taldi dómurinn því ekki útilokað að einhver annar en ákærði hefði ráðist á manninn umræddan morgun sumarið 2006. Væri slíkur vafi á sekt ákærða að það bæri að sýkna hann af ákæru um líkamsárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×