Innlent

Eldsneyti hefur hækkað um fimmtung á einu ári

Bensín og dísilolía hafa hækkað um 20 prósent á einu ári. Fólk er farið að spara sér þjónustu á bensínstöðvum og nýta sér afslátt með dælulyklum.

Búist er við að olíufélögin hækki bensín- og gasolíuverð eitt af öðru í kjölfar þess að N1-stöðvarnar hækkuðu verðið í gær. Þar hækkaði bensínlítrinn um eina krónu og 50 aura og eru nú komið upp í röskar 134 krónur lítrinn í sjálfsafgreiðslu og með þjónustu nálgast verðið 140 krónur.

Í krónum talið hefur sjálfsafgreiðsluverðið hækkað um 23 krónur á einu ári. Þá er dísilolíulítrinn kominn upp í tæpar 137 krónur lítrinn eða hátt í þremur krónum meira en bensínlítrinn. Dísillítrinn hefur líka hækkað um um það bil 20 krónur.

Kaupi viðskiptavinir bensín með fullri þjónustu, sem þýðir að starfsmaður á plani dæli á bílinn, greiðir hann hátt í sjö krónur í þjónustugjald af hverjum lítra. En með því að dæla sjálfur og nota auk þess dælulykil sparast hátt í níu krónur af hverjum lítra.

Olíuverð hefur farið hækkandi á heimsmarkaði upp á síðkastið og í gær náði það hundrað dollara markinu fyrir tunnuna í Bandaríkjunum en hefur aðeins lækkað aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×