Innlent

Slippurinn á Akureyri bauð langlægst í lokafrágang Sæfara

Endurbætur á Grímseyjarferju hafa farið langt fram úr áætlun.
Endurbætur á Grímseyjarferju hafa farið langt fram úr áætlun. MYND/Stöð 2

Slippurinn á Akureyri átti langlægsta tilboð í lokaendurbætur á Grímseyjarferjunni Sæfara en tilboð vegna verksins voru opnuð í húsakynnum Vegagerðarinnar í morgun.

Tilboð Slippsins hljóðaði upp á tæpar þrettán milljónir króna en þar á eftir komu Skipasmíðastöð Njarðvíkur og Vélsmiðja Orms og Víglundar, sem unnið hefur að viðgerð skipsins, með tilboð á bilinu 22-23 milljónir. Hæsta tilboðið átti Stálsmiðjan, tæpar 27 milljónir króna, sem er rúmlega tvöfalt hærra en tilboð Slippsins á Akureyri. Þessar fjórar stöðvar áttu kost á því að bjóða í verkið.

Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að gengið verði til viðræðna við Slippinn Akureyri um framkvæmd verksins en í því felast nokkrir verkþættir svo sem að smíða dyr á stjórnborðssíðu sem verður aðalinngangur í ferjuna sem gerir hreyfihömluðu auðveldara um vik.

Sams konar dyr verða settar á bakborðshliðina og verður neyðarútgangur. Þá verður skipt út um 22 fermetrum af stáli á byrðingi skipsins sem auðveldar og bætir klössun skipsins. Komið verður fyrir kælingu í efri flutningalestinni vegna fiskflutninga og salernum verður breytt þannig að þau nýtist hreyfihömluðum á betri hátt en ella auk nokkurra fleiri smærri verka.

Gert er ráð fyrir að vinna við skipið geti hafist á Akureyri 15. janúar og áætlaður verktími er þrjár vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×