Innlent

Samgönguráðherra: Sundabrautin tvímælalaust mikilvægust

Kristján L. Möller.
Kristján L. Möller.

Kristján L Möller samgönguráðherra segir ekki rétt að Vaðlaheiðargöng séu framar í forgangsröð en Sundabrautin eins og haft var eftir honum í Fréttablaðinu í dag. Þessi tvö verkefni hafa ekki áhrif hvert á annað og því sé ekki hægt að forgangsraða öðru umfram hitt. Í raun séu bæði verkin, auk tvöföldunar Suðurlandsvegar, forgangsmál. Þetta kom fram í þættinum Ísland í dag.

Í þættinum sagði Kristján ekki rétt að hann hafi sagt að Vaðlaheiðargöngin væru framar í forgangsröð. Hins vegar væri það verk vel á veg komið og því stutt í að framkvæmdir geti hafist. Hann benti á að rætt sé um að þessi verk verði í einkaframkvæmd og því hafi þau engin áhrif á hvort annað. Kristján benti ennfremur á að á þeim sex mánuðum sem liðnir séu frá því skipt var um ríkisstjórn hafi undibúningi við Sundabraut fleytt fram og að stutt sé í það að hægt verði að taka ákvörðun um hvaða kostur við lagningu brautarinnar verði valinn.

Kristján sagðist einnig vona að hægt verði að byrja á Sundabrautinni sem fyrst og að brautin verði tvímælalaust að veruleika á þessu kjörtímabili því að hún sé tvímælalaust mikilvægasta verkefni næstu ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×