Innlent

Ólafur Ragnar taldi að forseti ætti einungis að sitja í þrjú kjörtímabil

Ólafur Ragnar Grímsson hefur áhuga á að sitja áfram í embætti forseta Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur áhuga á að sitja áfram í embætti forseta Íslands.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fyrst fram til forseta taldi hann það hæfilegt að forseti gegndi embætti í tvö til þrjú kjörtímabil. Sextán ár væru of langur tími fyrir forseta, en bæði Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir gegndu embætti svo lengi. Þetta kom fram í máli Ólafs Ragnars á hverfafundi sem haldinn var í Súlnasal Hótel Sögu miðvikudaginn 11. Júní 1996 og Morgunblaðið vitnaði í daginn eftir.

Þann 1. ágúst næstkomandi hefst nýtt kjörtímabil forseta Íslands. Þá hefur Ólafur Ragnar gegnt embættinu í þrjú kjörtímabil en í nýársávarpi sínu síðastliðinn þriðjudag sagðist hann vera fús til þess að gegna áfram embætti forseta Íslands, ef það yrði vilji Íslendinga.

Vísir reyndi að ná tali af Ólafi Ragnari til að spyrja hann að því hvað orsakaði þessa viðhorfsbreytingu til æskilegrar tímalengdar í embætti. Ekki náðist í forsetann, en Örnólfur Thorsson, forsetaritari sagði að langur biðtími væri eftir viðtali við forsetann og því gæti þess verið langt að bíða að blaðamaður Vísis fengi svar við spurningunni.

Á hverfafundinum á Hótel Sögu sagði Ólafur Ragnar þó að ekki mætti gleyma því að þjóðin hefði stutt Vigdísi til svo langrar embættissetu og eflaust lengur hefði vilji hennar staðið til þess. Segja má að hið sama gildi um Ólaf Ragnar því að skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem gerð var fáeinum vikum fyrir jól, sýndi að Ólafur Ragnar nýtur stuðnings um 65% þjóðarinnar í embætti forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×