Innlent

Íslendingar telja sig búa við mikið atvinnuöryggi

Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða sem telja sig búa við mest atvinnuöryggi samkvæmt könnun sem Gallup International gerði síðla síðasta árs. 83 prósent Íslendinga í könnuninni telja sig örugga í núverandi starfi og 79 prósent telja sig geta fundið starf tiltölulega fljótt ef þeir verði atvinnulausir.

Norðmenn tróna á topi listans yfir þá sem telja sig búa við mest atvinnuöryggi, en 85 prósent þeirra telja sig örugga í vinnu. Þar á eftir koma Danir, Svíar og Malasar með 84 prósent og í fimmta sæti eru Íslendingar.

Íslendingar eru hins vegar efstir þar sem spurt er um það hvort fólk telji sig geta fundið nýtt starf fljótt ef það verður atvinnulaust. Sem fyrr segir telja 79 prósent svarenda á Íslandi sig geta það en þar á eftir koma Ástralar og Nýsjálendingar með 72 prósent og Danir með 70 prósent og Norðmenn með 63 prósent.

Rétt rúmur helmingur Kamerúna telur hins vegar atvinnuöryggi sitt lítið, 47 prósent Serba og 44 prósent Kosovo-búa.

Könnunin var gerð í 61 landi í október og desmber. Ef litið er til þeirra allra samanlagt telur einn af hverjum fjórum sig búa við lítið atvinnuöryggi en 66 prósent telja ekki líkur á að þeir missi starf sitt. Tíu prósent vita það ekki. Þá telja 36 prósent að að þau geti fundið starf tiltölulega fljótt í kjölfar atvinnumissis en 47 prósent telja að það geti tekið nokkurn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×