Innlent

Tjón af völdum veggjakrots gæti numið milljónum

MYND/STöð 2

Lögregla handtók þrjá sautján ára pilta undir morgun á Laugaveginum í morgun, grunaða um veggjakrot á mörg hús við Laugaveginn og jafnvel víðar. Tjónið gæti hlaupið á milljónum króna.

Lögregla fékk ábendingu um piltana og gat rakið för frá bíl sem þeir voru á niður á Laugaveginn. Þar tókst lögreglumönnum að koma piltunum í opna skjöldu þannig að Þeir voru allir gripnir með úðabrúsa og önnur tól til veggjakrots í fórum sínum.

Þeir voru yfirheyrðir ítarlega í morgun en síðan taka barnaverndaryfirvöld við málinu. Ekki liggur fyrir hvort þeir hafa játað á sig fleiri spellvirki en mikið hefur verið um veggjakrot í borginni að undanförnu.

Tjón af völdum veggjakrots á mannvirki Reykjavíkurborgar nemur árlega tugum milljóna króna og tjón húseigenda og fyrirtækja nemur sjálfsagt öðru eins að sögn þeilrra sem til þekkja. Engar hömlur eru lagðar á sölu úðabrúsa til unglinga og virðist skorta lagaheimildir til þess. Á meðan svo er halda viðskiptin og spellvirkin áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×