Enski boltinn

Wenger hrósaði Eduardo

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur skorað á leikmenn sína að halda áfram að slá á gagnrýnisraddirnar á nýju ári eftir að lið hans vann góðan 2-0 sigur á grönnum sínum í West Ham í dag.

Sérfræðingar höfðu ekki mikla trú á því að ungt lið Arsenal myndi verða í baráttunni um titilinn í vetur, en liðið situr sem fyrr í toppsætinu eftir fína jólatörn.

"Ég vil bara að liðið haldi áfram á söum braut. Við erum í fyrsta sætinu þann 1. janúar og það þýðir að hlutirnir eru í okkar höndum fram á vorið. Þannig vildi ég hafa það," sagði Wenger í samtali við Sky í dag.

"Það kemur mér aldrei á óvart þegar þetta lið er að spila vel því ég var einn af þeim fáu sem hafði trú á því þegar flautað var til leiks í sumar. Þetta er maraþonhlaup og við viljum fyrst og fremst ná stöðugleika," sagði Wenger og hrósaði Króatanum Eduardo sem skoraði eftir innan við tvær mínútur í dag.

"Hann er náttúrulegur markaskorari og sýndi það aftur í dag. Ef hann fær tækifæri í teignum mun hann nýta það og hann er að sýna af hverju við keyptum hann. Það var líka mikilvægt að fá þetta framlag frá honum í dag þar sem við vorum án þeirra Bendtner og Van Persie. Eduardo svaraði kallinu með því að skora með sinni fyrstu snertingu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×